27.12.2010 | 17:14
Héðan og þaðan, frh.
Í tilefni af afmæli útvarpsins okkar á dögunum er ekki svo vitlaust að rifja upp til gamans að Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari, tónskáld og einn af brautryðjendum íslenska útvarpsins var systursonur séra Árna Þórarinssonar hjá vondu fólki. Það var einu sinni sem oftar að séra Árni mætti gömlum uppgjafapresti kunningja sínum á götu í Reykjavík. Prestastefna stóð yfir á Þingvöllum. Uppgjafapresturinn gamli, gamalguðfræðingur eins og séra Árni segir þá frétt, sem honum þótti mergur í, þau tíðindi, að til stæði að brenna biskupinn á báli á prestastefnunni fengist meirihlutasamþykkt fyrir því, sem karl taldi heldur ekki ólíklegt. Auðvitað má vel kíma yfir elliglöpum gamlingja. En ekki er alveg víst að séra Árni hafi gert sér strax ljóst hvort karlinum væri virkilega alvara. Biskupinn sem um ræðir var auðvitað bæði nýguðfræðingur og frjálslyndisgopi í augum þeirra málvina; hinn mesti sómakarl.
Standa ekki stöðugt yfir skrýðingardeilur í fásinninu, gallalausir gallagripir umvafðir væntumþykju, mest þó dýrkaðir á fremur þröngsýnislegan hátt og gerilsneyddan, heldur guðleysislegan og leiðan máta. Svo úr megi rætast eru allir beðnir blessunar. Minna um ertandi tanngnístran, hrellingar, nánasarlegt hark. Því síðan hvenær og hvenær í fyrirsjáanlegri framtíð skulu vel reidd kjaftshögg talin heyra fortíðinni einni til, fyrnd víkingabrögð? Það er nú svo. Og yfirburða hvað? Margur leitandi. Hver beinir för? Þó margir hafi bjargað sér á flótta verður að endingu hvergi flúið. Öllum raunar skilt að raða sér upp. Dauðadómur er upp kveðinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.