8.1.2011 | 14:10
Brámáni brámána
Kona, þú sem aflar til jafns við karl þinn, elur börnin með þjáningu, en hvað er á seyði, bíðum nú við, sleppum því, yndisauki þinn og hömluleysi, menningaraflvakinn holdgerður, streitufullur, aukagetan, afurð langrar og strangrar skólagöngu, og þú þiggur mála fyrir jafnt og karlinn, táldregin hjá óþekktum yfirboðara, halastýfðum, kollóttum með klaufir, með afhoggin hausinn við daus, sjálfvirkur, tæknivæddur, unir því sem falt er, heiman og heima, (síyrkjandi uppi í bjargi, oná þúfu, í tölvu, gjörningi, uppistandi, leshring, leikhúsi, á veitingahúsi, í danshöll, fjallgöngu, fallhlíf, sundi, búð.) Wie schade!
Kona! Þú sem elur börnin eða fyrirfer þeim, stappaðu í þig stálinu, þyldu þínar særingaþulur til höfuðs arðræningjum í matrósafötum, skelltu þér í framhaldsnám, passaðu þig ógnarvel áður en þú legst með draumaófreskjunni, jógaðu þig klögunarlausa, fangbrögðin, pillan, ekki lyfta lærinu, þaggaðu þitt fína yfirsjálf í hel, iðrun, yfirbót, bænalíf, ekki í Smáranum, á háum hælum, með kúadellu í klóinu. Lyftu þér upp, trivial pursuit. Barnaníðingar eru harðhentir hrottar. Af 5000 börnum, sem getin eru árlega á Íslandi fæðast 4000 og þess utan sprengipillur, skimun, valur á sveimi, ekki kjaftur á kreiki, allt með felldu, útrásarvíkingar hrundu saman, bankarnir líka, yfir stendur rústaleit og mænir hver upp í annan, illa tenntir með störu, stjarna glóir og stýfir hvel; þér sem eigið lífið framundan í þögn fyrri kynslóða og þeirra ókomnu og þekkið ekki yðar eigin, sem umlykur yður, standið ykkur, fagurgali og léttúð, ykkar indignereðu dissidentar, haldið uppteknum hætti. Þó gefin sé upp öll von gefist ekki upp. Líkindi og tilviljanir hitta hvern heima þó hóglát tiltrú láti lítt á sér kræla, sem af líkum lætur.
Athugasemdir
Óskaplega hefurðu lítið álit á konum, Jón!! Þetta jaðrar við fyrirlitningu.
Gústaf Níelsson, 10.1.2011 kl. 02:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.