14.5.2011 | 18:50
Óskilyrtur eða skilyrtur boðháttur
Stjórnarbyltingin í Frakklandi.
Frumorsakir óróans í Frakklandi voru: Skuldir franska ríkisins allt frá Spænska erfðastríðinu í upphafi aldarinnar (þeirrar átjándu), fjáraustur til stuðnings ensku nýlendunum í Norður Ameríku, úrelt stjórnarform, sem byggðist á hugmyndum stigveldisins og hrikalegur uppskerubrestur á þessum árum svo að brauðverð hafði aldrei verið jafn hátt. Auk þessa voru sterk öfl innan hirðarinnar þar á meðal náfrændur konungs, sem töldu konung óhæfan til þess embættis sem hann gegndi. Hertoginn af Orléans, náfrændi konungs, taldi sig hæfastan til að gegna konungdómi og vann að því öllum árum að magna óánægjuna með konunginn Lúðvík XVI. Hann hafði náin tengsl við þá sem harðastir voru í baráttunni gegn öllum tilraunum konungs til að koma á viðunandi ástandi. Upphafið að byltingunni kom að ofan, aðallinn og háklerkar voru skiptir. Efnahagsástandið virtist stefna að ríkisgjaldþroti og þess vegna voru fjármagnseigendur hvatamenn breytinga á stjórnkerfinu og fjármögnuðu þau öfl, sem unnu beint og óbeint að hruni ríkjandi stjórnkerfis. Og síðast og ekki síst hafði sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjamanna mikil áhrif og þar með kenningar upplýsingarinnar um jafnan rétt fyrir lögunum, ekki stigveldi.
Hluti aðalsins og auðugir borgarar mynduðu stétt nýrra manna, sem hvatti til grundvallarbreytinga á stjórnkerfinu, og þessi hópur varð með byltingunni hin nýja valdastétt Frakklands þegar tímabundið upplausnarástand hafði runnið sitt skeið 1792-1794.
Afleiðingar frönsku byltingarinnar voru: Stigveldið hrundi og lögstéttakerfið þar með, þar með réttur hvers og eins viðurkenndur til frumkvæðis og athafna, afskipti og stöðlun ríkisvaldsins og efnahagskerfisins dróst saman og hlutur einkageirans efldist.
Þegar á dögum Lúðvíks XVIII (kom til ríkis 1814 eftir afsögn Napoleons Bonapartes) hófst blómaskeið aukisns iðnaðar og verslunar í Frakklandi, þjóðinni fjölgaði og fleiri töldu sig hlutgengna til afskipta um landstjórn. Iðnþróunin gekk hratt fyrir sig og umbreytingin frá stöðnuðu þjóðfélagi til markaðsþjófélags bar í sér mikil umskipti og misræmi, sem olli ólgu meðal þeirra, sem töldu sig afskipta. Þetta varð því blómatími hugmyndafræðinga, sem töldu sig færa um að leysa öll, minnsta kosti flestöll sambýlisvandamál. Framleiðslugetan var ekki orðin það mikil, að hún héldi í við fólksfjölgunina. Þetta misræmi framleiðslu og fólksfjölgunar og kenndin fyrir misræminu og misskiptum gæðanna efldist því meir sem framleiðslugetan jókst, en því miður ekki nógsamlega. Þetta varð kveikja byltinga og eðlilegs óróa og allra þeirra hugmyndafræða, sem blómstruðu á þessum árum, hátimbraðra og hálf þokukenndra útlegginga af hinu fullkomlega vísindalega uppbyggða samfélagi lengst út við sjóndeildarhringinn. Og hvar blaktir nú fáni vísindalegs lýðræðissósíalisma, velupplýstra og veraldavanra?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.