19.2.2012 | 12:54
Höfuðskepnur góðs og ills
Á hárfínu bili róggirni og gagnrýnar hugsunar
Séra Páll skáldi Jónsson f. 1779 var einhverju sinni staddur hjá Magnúsi Stephenssen konferensráði, sem þá bjó á Leirá. Þeir voru ágætir vinir. Settust þeir við skál og ræddu margt. Barst þá í tal hjá þeim hvort nokkur djöfull væri til. Hélt Magnús því fram, að hann væri ekki til, en Páll hinu gagnstæða- og harnaði skjótt ræða þeirra. Færði Magnús skýr rök fyrir máli sínu og þótti Páli loks heldur halla á sig. Hann stóð upp, kvaddi sér hljóðs og mælti af munni fram:
Ég er nú kominn á þá trú,
allar sem líkur sanna,
að enginn sé djöfull utan þú,
óvinur Guðs og manna.
Þú leiðir menn á lasta veg
og lífs af brautu spennir
og klæki kennir.
Ályktun þessa þar af dreg:
Að þú í Helvíti brennir.
(Skrudda II Ragnar Ástþórsson skráði.)
Magnúsi hnykkti nokkuð við þetta sem von er. Þó breytti þessi rimma í engu vináttu þeirra, þó allsnörp væri. Páll átti dóttur, Guðrúnu, sem líka var skáldmælt. Þau áttu sammerkt, að bæði þóttu illskæld. Nær væri mörgum að halda, að þeir félagarnir, skáldið og konferensráðið, hafi aldrei orðið fyllilega samir eftir þennan fund. Nægir að vísa til áhrifa hugmyndafræða, sem við tóku af fastmótaðri trúarsetningu um gott og illt. Enn erum við á okkar tímum efasemda, eftir hrun hugmyndafræðinnar, fall Sofétríkjanna og íslensku bankanna, stödd á hárfínu bili róggirni, stundum rætinnar og skemmtilega marklausrar, og hins vegar spurular og oft gagnrýnar hugsunar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.