23.5.2012 | 16:08
Ívitnun og titlar, frh.
Heimspeki Brynjólfs Bjarnasonar, úttekt úr grein í Andvara 1997 eftir Skúla Pálsson. Stjórnmálamaðurinn Brynjólfur, grein 1996 í Andvara eftir Einar Ólafsson. Ritstjóri Andvara, Gunnar Stefánsson.
1. Er hægt að tala um algera nákvæmni í mælingum? Ef maður hugsar sér tíma og rúm algerlega samfelld, er tómt mál að tala um algera nákvæmni. Það er ekki hægt að komast að stærðfræðilegum punkti í neinni mælingu. Það sem mælt er, eru bil milli hlutverulegra efnispunkta, en ekki punkta í sértæku, stærðfræðilegu rúmi. Tækni vor setur nákvæmni allra mælinga raunvirk takmörk... (Lögmál og frelsi, bls 48 Bryn. Bj.)
2. Ef við setjum tölu inn í tölvu, sem á að reikna út veðrið í næstu viku eða eftir mánuð þá þarf tölvan að nota töluna þúsund sinnum eða milljón sinnum í útreikningum sínum. Í svo flóknum útreikningum gæti tala með tíu aukastöfum verið of ónákvæm, en við fáum hvergi svo fullkomna mæla að þeir gætu gefið okkur nógu nákvæma tölu.
3. Brynjólfur telur að þegar mjög flókin kerfi þróast verði til ný lögmál sem ekki sé hægt að útskýra með einfaldari hlutum kerfisins og ekki hefði verið hægt að reikna út fyrirfram. Hann telur að við þróun lífsins hafi orðið til ný lögmál. Ef þetta er rétt ættu líffræðingar að þekkja lögmál, sem eðlisfræðingar geta ekki útskýrt. Einnig telur hann að þegar vitund mannsins kemur til í þróunar sögunni verði til ný lögmál sem ekki hefði verið hægt að sjá fyrir með því að þekkja þróunina fram að því. Samkvæmt þessu ættu sálfræðingar að þekkja lögmál sem líffræðingar þekkja ekki.
4. Við getum reynt að skilja heildarhyggju út frá hefðbundinni aðferð vísinda, sem er að greina hvern vanda í sem minnstar einingar og gera grein fyrir heildinni sem samspil hlutanna. Samkvæmt heildarhyggju eru hinsvegar partanir ekki skiljanlegir nema sem hluti af heild og heildin er meira en summa partanna.
5. Margir hafa reynt að hugsa sér einingu mannsins og náttúrunnar, finna hvernig maður og náttúra lúti sömu lögmálum. Flestar slíkar kenningar má flokka undir svokallaða náttúruhyggju (natúralisma) eða veraldarhyggju. Slíkar kenningar segja: maðurinn er eins og náttúran, um hann og hugsun hans gilda náttúrulögmál. Brynjólfur virðist gera þetta úr hinni áttinni og segja: náttúran er eins og maðurinn, og hún er líka sjálfsvera.
6. Í síðari bókum sínum talar Brynjólfur um að jafnan stangist á tvö sjónarhorn: Ytra sjónarhorn, sem skoðar heiminn án sérstaks tillits til mannsins, frá þessu sjónarhorni er maðurinn aðeins einn af hlutum heimsins, við getum sagt að þetta sé sjónarhorn vísindanna og innra sjónarhorn mannsins, en samkvæmt því veljum við og höfnum, ráðum gerðum okkar.
7. Á 18. öld setti Hume fram fræga gagnrýni á orsakalögmálið og sú gagnrýni varð síðan kveikjan að heimspekikerfi Kants. Stundum tekur Brynjólfur þannig til orða að orsakalögmálið sé okkur lífsnauðsyn. Þessi röksemdafærsla er að forminu til það sem kallað hefur verið forskilvitleg röksemd, hún reynir að sýna fram á skilyrði fyrir þekkingu. Að þessu leyti minna rök Brynjólfs fyrir orsakalögmálinu á vörn Kants gegn gagnrýni Humes.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.