5.8.2012 | 13:54
Fljótsdrög í mynd leitarmanns
Fljótsdrög í mynd leitarmanns
Réttarvatn
Efst á Arnarvatnshæðum
oft hef ég fáki beitt.
Þar er allt þakið vötnum,
þar er Réttarvatn eitt.
Og undir Norðurásnum
er ofurlítil tó,
og lækur líður þar niður
um lágan Hvannamó.
Á engum stað ég uni
eins vel og þessum mér.
Ískaldur Eiríksjökull
veit allt, sem talað er hér.
Jónas
Norðlingafljót er ein af upptakakvíslum Hvítár í Borgarfirði, og sú þeirra, sem hefur lengstan aðdraganda. Norðlingafljót kemur upp í Fljótsdrögum við norðvestanverðan Langjökul, og dregur til sín vatn af sunnanverðri Arnarvatnsheiði, og undan Hallmundarhrauni. Fellur það í Hvítá skammt fyrir neðan efstu byggð í Mýrasýslu, skammt undan Tungusporði, gegnt Húsafelli. Rennur það með norðujaðri Hallmundarhrauns og síðan um Gráhraun. Vatn þess ódrýgist er það fellur um gropin hraunin. Vatnið kemur aftur fram í dagsljósið í fossandi lindum, til dæmis í Hraunfossum hjá Barnafossi.
Landið þitt Ísland Steindór frá Hlöðum
Talið var fyrr á árum, að heimalönd Grímstungu og Kalmannstungu næðu saman, þótt enginn vissi glöggt hvar landamerkin lægju, og vita varla enn.
Sunnanvert við Grímstunguheiði hækkar landið að mun og er þar víðáttumikil, gróðurlítil og hrjóstrug öræfi 600-850 metra hæð yfir sjó. Þetta svæði kallast einu nafni Stórisandur (Yfir kaldan eyðisand... Fjallaskáldið á leið í skóla: JB) og nær allt suður til Langjökuls og Fljótsdraga. Lækir og kvíslar falla víða til norðurs af Sandi og eru mestu vatnsföllin Vatnsdalsá og Álftaskálará og koma saman fremst í Vatnsdal.
Suðvestan Bláfells heitir hæðarás Langijörvi... Þaðan suður af taka Fljótsdrög við, víðáttumikið flatlendi í 500 metra hæð, og nær til Langjökuls og Hallmundarhrauns að austan og sunnan.
Úr Fljótsdrögum fellur Norðlingafljót til Borgarfjarðar. Þarna er náttúrufegurð mikil. Langjökull og Eiríksjökull mynda bogaumgjörð um Drögin frá austri til suðvesturs með dökkar hraunborgir innst í boganum. Fjöldi álfta hefst þarna við á sumrum, en einnig lómar og himbrimar.
Sól er farið að halla til norðurs, jöklarnir blasa við skínandi bjartir með dökkum stöllum og klettabríkum í hlíðunum upp úr freranum. Skriðjökulsfossar Eiríksjökuls geifla granir og skella köldum kossum á úfið og grett Hallmundarhraun. Kvíslar og dökkir sandar efstu Fljótdraga skiptast á, og til vesturs virðist víðátta grænna heiðanna endalaus. Þetta eru sumardraumarnir hans Ásgríms.
Hestarnir gerast nú sporléttari. Þeir eiga líka sitt óskaland sunnan við Sand og finna, að þeir nálgast það. Sulturinn er farinn að segja til sín eftir hagleysið á Sandi. Þeir vita um sinn glólund með gras og svalalind í Fljótsdragtanga.
Ágúst frá Hofi, Örn og Örlygur 1970
Eyrarrósin á sér stað í urð og grjóti;
sveigir höfuð suður í móti
svo hún birtu dagsins njóti.
Njörður P. Njarðvík
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.