Líneikin

Líneik og Salka Valka fjórða áratugar aldarinnar leið skjóta upp kolli í Fagrar heyrði ég raddirnar, þjóðkvæði og stef, Einars Ólafs Sveinssonar, 1974. Þorsteinar úr Bænum aftur í ljóðakveri HKL; hinn eini sanni - granni Málfríðar Einarsdóttur í Borgarfirði.

1.
Ef sumir vissu um suma/ það sem sumir gera við suma,/ þegar sumir eru frá,/ þá væru ekki sumir við suma/ eins og sumir eru við suma,/ þegar sumir eru hjá.

2.
Leiðist mér að liggja hér í ljótum helli;
betra er heima á Helgafelli
að hafa þar dans og glímuskelli.

Eignað draugi í Draugahelli undir Jökli öðruhvorumegin við aldamótin1600

3.
Ósabakki í Meðallandi (farinn af fyrir 1500)

Árni minn á Ósabakka er ekki frómur;
sannur er það seggja rómur,
síðan hann át úr hrútnum blómur.

4.
Lundur í Fljótshverfi (farinn af um 1400)

Lundakirkja er besta bú
berst í vatnaróti.
Hvar er sóknin hennar nú?
Hulin aur og grjóti.

5.
Ljós var loginn sá,
hinn væni
þar lundurinn brann hinn græni.

Fellur dögg á fagra eik í lundi.

6.
Ein væn,
lifrauð, laufgræn
reyniviðarhrísla stendur í miðjum Vaglaskógi.

7.
Múkahólar hjá Helgafelli.

Maðurinn á Múkahólum
mælti svo við prestinn sinn:
Guð gefi þér góðan daginn, karlinn minn!

8
Gömul rímnavísa:

Við eldinn sátu töfratröll
tekin voru að sjóða,
meinguð átu merarföll,
með ólátum höfðu sköll.

9.
Stef.

Allir kallar eru hér á gangi;
hlupu þeir upp á heiði,
búnir voru sem kettir.

10.
Rödd á glugga.

Liggur þú hér Ingjaldur einn í læstum skála.
Nú er sá kominn, sem geldur köppum kóngsins harðan mála.

11.
Skipin liggja hér við sand
þar er á fjöldi karla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

12.
Ungan leit ég hofmann
í fögrum lundi.
Skal ég í hljóði dilla þeim ég unni.

13.
Hýr mundi ég hlaðsól heitt unna þér,
ef þú vildir í dúninum dilla mér.

14.
Svo er hún fögur sem sól í heiði renni;
augun voru sem baldinbrá,
bar þar ekki skuggann á,
og er sá sæll, sem sofna náir hjá henni.

15.
Upp er komin tillitá og takt´á;
sjóvetlingur situr hjá og segir frá.
Ráðabrugg álfa.

16.
Hirði ég aldrei hver mig kallar vóndann:
heldur kyssi ég húsfreyjuna en bóndann.

17.
Það er nokkuð meingað mál
og múkavilla,
ég má ekki jómfrúnum dilla.

18.
Rýkur á Krossi, rýkur á Á,
rýkur í Frakkanesi,
Reynikeldu rýkur á,
rýkur á Melum og Ballará.
Bæir á Skarðsströnd.
19.
Grímsnes hið góða
og Gull-Hrepparnir.
Sultartungur
og svarti Flói.

20.
Þriðjudag í föstuinngang,
það er mér í minni,
þá á hver að falla í fang
þjónustunni sinni.

21.
Víðar er guð en í Görðum,
hann er líka í Grindaskörðum.

22.
Fram í runnin, meðan ég má,
mínum held ég plógi.
Ekki eru brunnin kolin smá
á Lundúna-skógi.

23.
Hóf er á öllu
nema hvílukossum einum.

24.
Þegar spóinn vellir graut,
þá eru´úti vorhörkur og vetrarþraut.

25.
Hjartað mitt er hlaðið kurt,
hvergi náir skeika;
með fótinn annan fór ég á burt,
fáir munu eftir leika.

26.
Eru í hrauni Ögmundar
ótalmargir þröskuldar,
gjótur bæði og grjótgarðar
glamra þar við skeifurnar.
Ögmundarhraun, Selatangar, Krísuvík.

27.
Gakktu í ána góðurinn minn,
það gerir biskups hesturinn.
28.
Psallarasöngurinn og hindarhljóð,
mörgum þykir meyjunum
mannsins kvæði góð,
psallarasöngurinn og hindarhljóð.

29.
Herrann skapaði loft og láð,
lýði og blómstrið fríða.
Sá var hagur, sem það kunni smíða.

30.
Gott er þeim sem glatt hafa sinni,
guð sé með oss öllum hér inni.

31.
Gullbúinn gimbill í grænkunni lá,
hleypur hann um hlíðarnar og hefur horn upp´á.
Faðir þinn er flekkóttur og móðir þín er grá.
Þegiðu fífilkollur, hver sem þig á.

32.
Hljóðgóðar hindur,
við hönd höfum fest,
þú kyssir þýðast
og kveður best.

33.
Ég skal gefa þér gull í skel,
ég skal gefa þér silki í stél.

34. Grímseyjarkarlinn.

Karlinn undir klöppunum,
klórar hann sér með löppunum,
baular hann undir bökkunum
og ber sig eftir krökkunum
á kvöldin.

35.
Tittlingur í mýri
tínir hann berin rauð,
kemur hann heim á kvöldin
og klagar sína nauð.

36.
Dúfan í Danmörk
hún er hlaðin baugum;
gull er hennar nefi á
allt upp undir augum.

37.
Tittlingur í mýri
tínir hann berin blá,
kemur hann heim á kvöldin
og kúrir mér hjá.

38.
Þei, þei og haf ei hátt
hér dunar undir,
er stigið ekki smátt
um fold og grundir.

39.
Gymbill mælti
og grét við stekkinn:
“Nú er hún móðir mín
mjólkuð heima,
því ber ég svangan
um sumar langan
munn minn og maga
í mosaþúfu.”
Gymbill eftir götu rann,
hvergi sína móður fann,
þá jarmaði hann.

40.
Lambið hún litla Móra,
lengi á hún að tóra,
þar til hún fæðir fjóra
fitjadilka stóra.

41.
Dagur líður, dimma fer,
dregst að nóttin svala;
myrkrið gerir mér og þér
marga byltu fala.

42.
Við skulum ekki hafa hátt,
hér er margt að ugga;
í allt kvöld hef ég andardrátt
úti heyrt á glugga.

43.
Silfukerin sökkva í sjó,
en soðbollarnir fljóta.

44.
Álfkona kveður við kú sína, sem komin er í eigu manna.
Lýr, lýr, vappar,
votir eru tappar,
illa gerði konan til ljúfrar Lappar.

45.
Kisa fór á lyngmó,
rjúpurnar elti,
setti hún upp sinn daggarhatt
og dynfjaðrabelti.

Hún var í rauðum skarlatsstakki
á berjamó,
með tinbelti föður síns
og tvenna skó.

46.
Krummi situr á kirkjuburst,
kallar hátt með sinni raust.
Vetur, sumar, vor og haust
vappar hann út um berjamó
með tinbelti föður síns
og tvenna nýja skó.

47.
Gangið þið heilar í hagann,
gerið engum bagann;
guð gefi ykkur gras í maga,
mjólk í spena, fisk í júgur, hold á bein.
Sankti María, sestu á stein.
Guð greiði götu mína,
geng ég svo heim.

48.
Guð láti sólina skína
yfir fagra fjallinu því.
sem hún Máría mjólkaði kúna sína.

49.
Gamli klárinn. Gráni.
Heimsálfurnar sjö hann sá,
hinar fjórar aldrei fann.
Fallegur er hann framan-á,
og fyrir aftan líkamann.

50.
Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu,
þau áttu sér kálf,
og nú er sagan hálf;
hann hljóp út um víðan völl,
og nú er sagan öll.

51.
Sofðu bliða barnkind mín,
byrgðu aftur augun þín,
friðarins guð þér frelsi bjó,
fyrir það sofðu í góðri ró.
Geymi þín drottinn dýrðarhæstur
og dillidó.

52.
Týnd jól norðan fjalla.
“Ólafur Muður! ætlarðu suður. Vel mun þer veita með kapalinn feita. Langt finnst mér langdegi, ljóst finnst mér skammdegi. Ræð ég þér, rangkjaftur: ríð þú heim í sveit aftur. Gyrtu þig betur, ef þú ætlar að róa í Stafnesi í vetur.” “Sit þú heil hin háva, hallveig á Bláfelli!” “Fáir kvöddu mig svo forðum, og farðu vel ljúfur hinn ljúfi. Líttu í austur, ljósum er riðið.”
Samtal þeirra Ólafs og Hallveigar, skessu í Bláfelli, leysti hana úr álögum. Heil á húfi reyndist skessa álfkona. Jólin komu í leitirnar norðan heiða.

53.
Ég ætla bara, bara, bara, bara að fara milli bara, eða bara, bara, bara fara í geim, eða bara, bara, bara fara heim. (Haukur Morthens).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband