12.4.2008 | 15:33
Tröllin í fjöllunum
STÓRIÐJU- og virkjunarsinnar láta um þessar mundir ljós sitt skína. Helst þyrfti, ef vel ætti að vera, einhvern jafnoka þeirra til svara, ef til vill gamla kommúnista sem trúðu á stóriðju af gildum ástæðum. Þeir gerðu þessu skil.
Virkjunarsinnar gera sér enga grein fyrir hvers virði ósnortnar víðáttur og náttúra Íslands er, verður og mun verða komandi kynslóðum. Hefur þeim þar hrapallega skjöplast í sinni díalektísku efnishyggju. Í nýlegri grein er viðruð knýjandi nauðsyn þess að afla orku til álframleiðslu úr íslenskri náttúru og áhyggjum er lýst af útblæstri koltvíildis og gróðurhúsaáhrifum vítt um heim.
Ísland gæti aldrei útvegað rafmagn nema sem svarar til sólarhringseyðslu einnar meðalstórrar borgar í útlöndum. Að teknu tilliti til þess er ljóst að skyldur okkar hvað varðar mengunarvarnir heimsins væru örugglega dyggilegar ræktar með eitthvað hóflegri framkvæmdagleði hér innanlands í þágu orkufreks iðnaðar. Það er ærið að verja.
Jarðsögulega séð lifum við á einu af fáum heldur skammæjum hlýskeiðum ísaldar, hlýskeiði, sem hófst fyrir u.þ.b. 10.000 árum. Þrátt fyrir hitasveiflur hefur að jafnaði loftslag farið kólnandi, og stefnir í nýtt jökulskeið. Hvar var Vatnajökullinn okkar um Krists burð, Klofajökull um landnám?
Gróðurhúsaáhrifin svokölluðu eru langt í frá nokkurs staðar örugg í hendi, ekki fremur en flugið fyrir daga Wright-bræðra. Allir færustu vísindamenn höfðu sannað, að ekki væri hægt að fljúga en samt var flogið. Samkvæmt öllum tiltækum útreikningum getur býflugan ekki flogið þó svo hún fljúgi.
Allt það vetni sem losnar við olíuvinnslu fær óhindrað að stíga út í bláinn en jarðgasið sem líka leggst til við olíuvinnsluna er nýtt til raforkuframleiðslu. Það væri langtum nærtækari orkugjafi til að knýja áfram stóriðjuver en árnar íslensku, ætti a.m.k. að vera það í hugum Íslendinga. Nema menn hyggist ganga leiðina á enda hér á landi.
Hversu langt hyggjast menn ganga í virkjunarefnum, ríkisvaldið í gróðavoninni og tækjasalnum á fjölmenningarlullinu? Áður en svar fæst við því fyrir fullt og fast: Er ekki örugglega einhver haldbær samanburður til á mengandi útblæstri eldgosa, hverasvæðanna íslensku, alls vélaflota heimsins, kyntra kolaelda og kýrrassa? Ætli Sankti Helena hafi ekki spúð meira af gróðurhúsalofttegundum út í gufuhvolfið hér um árið en allir mengunarvaldar jarðar samanlagt þann tíma sem gosið stóð og ívið betur.
Frá því að ísöld hófst, fyrir meira en tveimur milljónum ára, hafa skipst á hlýskeið, ærið skammæ, og langvarandi jökulskeið. Betur væri látið ógert að réttlæta mjög svo hæpna sóðavæðingu landsins sem knúin er fram þessi misserin af djöfulmóði, studd ódýrum rökum á kostnað hrífandi náttúru okkar unga, fagra og viðkvæma lands.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.