17.4.2008 | 12:23
Er þrælahald úr sögunni og bannað?
VIÐGENGST þrælahald í nýja hnattræna hagkerfinu, enn óbilgjarnara en fyrr á dögum? Þegar þrælaeign var löghelg og þrælar hlutfallslega dýrir giltu þó lágmarksmannasiðir, sem hafa verið aflagðir, aðhlynning veikra og þessháttar. Kevin Bales, höfundi nýútkominnar bókar, Disposable People, New Slavery in The Global Economy kom ástandið gersamlega í opna skjöldu snemma á níunda áratugnum. Hann hefur um langt árabil kappkostað að kynna sér þrælahald, einnig á vettvangi glæpsins.
Þrælakistur víða um lönd halda niðri verðlagi á mörgum eftirsóttum vöruflokkum. Þrælahald heldur niðri vinnulaunum í samkeppnisgreinum og ógnar atvinnuöryggi í löndum þar sem rétturinn til launa er, hvað sem það kostar, sóttur, varinn.
Eins og nýleg dæmi sanna setja ríkisstjórnir allt sitt í gang, til að hindra flutning á efnamenguðum matvælum milli landa. En engin þeirra æmtir þó stál frá Brasilíu, múrsteinar frá Pakistan, járn frá Máritaníu, vefnaður og matvæli frá Indlandi, sykur frá Haítí, Dóminíkanska lýðveldinu o.s.frv. o.s.frv. sé unnið á markað af þrælum. Og hvað um stúlkubörnin frá Laos og Burma? Þrælar eru varlega áætlað u.þ.b. 30 milljónir á vinnumarkaði heimsins, framboðið gríðarlegt og eykst stöðugt. Eignaleysingjar flosna upp af jörðum um allan heim og fylla flokk mestu þjóðflutninga allra tíma, reika umkomulausir og ólæsir inn í borgirnar.
Mannfjölgunarvandinn er yfirþyrmandi stórvandamál og mestur hjá þeim allra snauðustu, hvað sem líður ebóla, svefnsýki og eyðni. Mannfjölgunin á ári fljótlega upp úr árþúsundamótunum verður álíka og heildarmannfjöldinn í heiminum fyrir u.þ.b. 200 árum.
Eyðnin slapp laus úr mælikeri vísindamanna og svefnsjúkir dotta áfram. Kapp skal lagt á að verða á undan pólitíkusum, sem vinna skulu bug á fátæktinni og mannfjölguninni. Ætlunin er hvorki meira né minna en að uppræta alla sjúkdóma. Fjárfestar hafa brugðist vel við og líka ríkisstjórn Íslands. Verðlag á þrælum og allur kostnaður við þá er í lágmarki. Í nútímaþrælavilpum kosta þrælar hlutfallslega jafnmikið og tölvur og eru einnota líkt og þær. Hvað segir nýfrjálshyggjan vestur í Bráðræði eða austur í Ráðaleysu? Fagna ber komu ungra kvenna frá Austur-Evrópu vesturyfir. Gangi þeim vel.
Mútur viðgangast og gegnumsýra stjórnsýslu margra ríkja. Mansal á stúlkubörnum í vændishús rentar sig svo dæmi er um 800% og er einhver öruggasti ábatavegur á hlutabréfamarkaði nú á tímum hnattrænu og netvæðingar. Vinnukraftur er auðendurnýjanlegur, því nóg framboð er á glimrandi fátæklingum í hungruðum heimi. Kostnaður við þrælatötrin er óverulegur, óbilgirnin algjör.
Þræll er jafnframt buguð manneskja, sem verður að þola ólýsanlegt harðræði, andlega og líkamlega. Efndir um ekrurnar fjörutíu og múlasnann eru hrópandi krafa um aðhlynningu, styrk, úthald, kærleika, kjark. Ekki hrátt kjöt af feitum kapítalistum.
Skuldaánauð heilu fjölskyldnanna hefur tíðkast á Indlandi frá upphafi siðmenningar fyrir 5000 árum og því um að ræða forna arfleifð í fjötrum. Sama gildir um ýmis lönd islam líkt og Máritaníu. Í jöðrum Amason-skógar í Brasilíu hneppa ginningartilboð allsleysingja í þrælakistur stáliðnaðarins þar í landi. Til þess að vinna stál þarf járn og viðarkol. Og þræla, sem sveitast undir byssukjöftum glæpahunda, undirverktaka, oftar en ekki helstu stórfyrirtækja heims. Þar gildir allsherjarregla líkt og hjá þeim ríkjum, sem undirvikust bann við þrælahaldi að hnýsast ekki að óþörfu um ástæður lágra verktilboða eða aðstæður múgafólks í fátæktarvilpum jarðar. Hvert er bandarískur stáliðnaður annars fluttur? Til Kóreu? Kraftaverk markaðarins þurfa sinn tíma og markaðurinn leysir allt.
Rússneska mafían tók að hreiðra um sig utan Sovét eftir Helsinkifundinn upp úr 1970 þegar sovétstjórnin greip tækifærið og losaði sig við alfúlasta glæpahyskið úr fangelsum sínum í samfloti með hópi innflytjenda til Ísraels. Eftir fall Sovétríkjanna hefur þessi rússneska mafía tekið höndum saman við gamla kommisaradótið heimafyrir. Og er bæði framúrskarandi nútímaleg og stendur ef eitthvað er öðrum framar á alþjóðavísu. Græðir á öllu, sem hægt er að græða vel á, vopnasölu, mansali, vændi, dópi, eðalsteinum, hlutabréfum, bankarekstri o.s.frv., smyr mekkanóið.
Frjáls samkeppni, framboð og eftirspurn, hagræðing í rekstri og hnattvæðing eru ekki einvörðungu lykilorð að framleiðslu og dreifingu á vöru. Þau ljúka upp völundarhúsi þar sem rökþrot og óbilgirni, sem svo mjög setja mark sitt á okkar tíma, ráða algerlega ríkjum.
Ódýra vöru ofar öllu og á neyslumarkað iðnríkjanna. Þeir sem komast upp með að nýta sér tækifærin nýti sér þau. Við Íslendingar bjóðum fala ódýra, umhverfisvæna raforku til framleiðslu á málmi, sem tengist mjög koltvíildisspúandi úðakútum á borð við risaþotur. Snertir þó ekki síður iðnvæðingu og framþróun fátækari ríkja heims. En við sækjum um undanþágu. Og fórnin? Ríkið rukkar. Íslenskir borga. Fáist ekki aðrir til að skjalla okkur og níða, bæði fáa og smáa, hvað þá? Þrælslund aldrei þrýtur mann/þar er að taka af nógu.
Væri ekki ráð, að utanríkisráðherra vor legði niður betlistafinn, aflétti smáninni, tæki um bagalinn og axlaði á sitt breiða bak eitthvað af byrðum heimsins í góðum félagsskap. Þvældist í neðra yfir Gjallarbrú, norður og niður líkt og Hermóður hjá Snorra, og aftur til baka, breyttur maður. Allt yrði betra og bættara. Ísland líka. Þökk mun gráta/ þurrum tárum... Af óhófs örlæti og heimskuprakt er hann enn að bíta úr nálinni garmurinn (Síðasta setning er fengin, örlítið breytt, úr Íslensk-latneskri orðabók, að stofni til frá því um 1820-1830, með miklum viðaukum innan máls og fjölda smásnepla með hendi Hallgríms Schevings. Sjá: Mergur málsins, Jón Friðjónsson, 1993).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.