18.4.2008 | 17:09
Hugtakið kynþáttur er ónýt mælieining
HUGTAKIÐ kynþáttur er ekki svo ýkja gamalt í hugmyndasögu Vesturlanda. Upp úr landafundum og í aðdraganda þeirra var framandi fólk á framandi stöðum fyrst og fremst heiðingjar í hugum Evrópumanna. Upp úr landafundum eykst vöxtur og viðgangur náttúrufræða. Með vísindabyltingunni á nítjándu öld og Darwin hafa náttúruvísindin ef svo má segja leyst skaparann af hólmi. Náttúrulögmálin standa óháð guði. Náttúran kemur í stað guðs. Hlutur kynstofnsins eflist og hlutur nýrrar elítu, hvítra karla undir gunnreifum fánum vísinda- og nytjahyggju. Samkvæmt skynsemistrúnni þóttu konur og börn ekki beysnar skynsemisverur fremur en húsdýrin.
Messíasarkenningar á borð við pósitífisma, framfaratrú, nytjahyggju, frjálshyggju, femínisma, guðspeki og kommúnisma líta dagsins ljós á nítjándu öldinni og hreinræktaður rasismi grefur einnig um sig í hinni mekanísku heimsmynd. Félagslegur freudismi og libido gerir sig gildandi. Femínistar og kynhverfir eru líffræðileg stærð og menningarafurð 20. aldar samkvæmt góðum og gegnum skilningi. En hvað ætli skammstöfunin D.D.R. komi þessum hlutum við? Segir a.m.k. einhverja sögu um enn aðra menningarafurð, velvaxta og stælta lýðræðisást.
Þroskaferli ungbarna vindur fram hvarvetna á jörðunni á sama hátt. 18 mánaða ungbarn, þriggja ára og fjögurra stígur sömu skrefin í þroska án tillits til litarháttar eða hnattstöðu. Langanir og þrár eru einráðar á frumbernskuskeiðinu. Það er vart fyrr en á fjögurra ára aldrinum að vit og þekking nægir litlu manneskjunni til að bæði efa og trúa. Þriggja ára barn veldur því ekki. Reynsla fólks mótast á einn mögulegan veg hver sem við erum og hvar sem við erum, hvort heldur við erum karlkyns eða kvenkyns, svört, gul, rauð eða hvít, vegna þess að við, sem burðumst með mennska vitund, erum einnar gerðar. Við lærum ólíkt öðrum lífverum inn á heim tungumálsins, tjáum okkur hvert við annað, gleðjumst eins og hryggjumst.
Öll lútum við því að verða að deyja. Nú til dags er allt sem máli skiptir greypt í litninga og ætti því öllu samkvæmt að óma í vitund okkar allra jafnt sekra og saklausra, missterkt þó. Niður með kynþáttahyggju hvort heldur hún birtist í sjálfbirgingi, aðdáun, fyrirlitningu eða hatri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.