Glæpur, refsing

HETJUR fornaldar kunnu ekki að iðrast, en vældu af tómri kergju þegar á herti líkt og Akkiles borgarbrjótur. Ólíkt Skarphéðni Njálssyni, miðaldamanni. Gunnar Lambason komst raunar að því fullkeyptu suður á Hrossey við Orkneyjar, þegar hann hermdi vílið og volið upp á Skarphéðin í brennunni. Kári Sölmundarson gerði hann höfðinu styttri.

Börn nútímans og hetjur kommúnismans kunna ekki fremur en hetjur fornaldar að iðrast. Vita ekki hvað það er. Hafa gengið styrkum fótum í dauðann, játað meintan glæp sinn og hrópað: Lengi lifi vísindalegur sósíalismi, dýrust meyja í hópi staðra mera. Byltingarmenn, ataðir blóði, voru jafnan sjúklega tortryggnir og kom það harkalegast niður á hópum fólks, sem saklaust taldist réttdræpt. Sekt hafði ekkert með sönnunarbyrði að gera. Afköst urðu hrikaleg. Menn hafa áætlað að u.þ.b. 100 milljónir manna hafi verið slegnar af á síðustu öld, friðarríki sósíalismans til dýrðar, 65 milljónir manna í Kína, 25 milljónir í Sovétríkjunum og 1,7 milljónir í Kambódíu.

Dauðinn er ekki til: Richard Rorty. Einungis líf og ærsl. Keppst skal við að einblína í framtíðina. Iðrun? Neo hvað? Á hvorki heima í orðaforða mannvinanna mestu, hvað þá í skrípalátum hlutdýrkendanna sjálfhverfu, þótt mannvit þeirra sé bæði mikið og þrútið og listrænt og heitfengt og hafi skolast víða.

Hugtakið framtíð er fremur ungt í evrópskum tungumálum, frá fjórtándu öld eða svo. Reis til vegs og virðingar í draumi Útópíunnar. Framtíð var á dögum áður álitin eina víddin í Paradís, friðarlandi spádómanna. Ein leiðin til að bæta sjáfan sig og heiminn, börnin góð, var og er og verður að gjöra iðrun.

Hvað ber að gera áður en tekið skal til óspilltra málanna? Ógerningur mun að umbera allt. Og enga kergju nú. Sumir eru óþolandi, sljóir og fávísir. Þörf er á faglegum vinnubrögðum. Nú gildir að hrökkva eða stökkva. Sóðalegustu hroðaverk allra tíma voru unnin á nýliðinni öld í nafni félagsvísindalegs skipulags, byltingar, undir fögru fyrirheiti, öreigafriðar og mannúðar. En líka villt frelsis til stóðlífs og ólmra ásta, gnægta, klárra vísinda og fjörugs menningarlífs. Vakir áhuginn ekki enn? Ríktu ekki trúgirni og lygar, áróðursbrögð og blekkingar í hugum allra helstu gáfnatrölla heimsins meðan á fíflskunni stóð? Hvað með umburðarlyndi skeytingarleysisins, doðann, siðblinduna? Komast meintar Moggalygar nema í hálfkvisti við allan hetjuskapinn? Enga hálfvelgju nú eða moðsuðu, ekkert sífur. Tíminn er dýrmætur. Konur og karlar. Örvæntið ekki. Öllum er frjálst að iðrast vegna eigin glópsku og ofdifsku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband