Synjun í hugsun og skynjun



ALLIR Íslendingar draga dám af aldalöngu stauti. Þeir, sem þykjast af prófgráðum sínum og finnast þær vera til þess fallnar að státa sig af, komast upp með það hjá okkur, því að fáir hér á landi velta mikið fyrir sér hvað í sið eða menntun felst. Langskólagengið fólk hefur oft lakari málkennd en óskólagengið fólk. Þrátt fyrir skólagönguna kann blessað fólkið ekki að beygja nafnorð, ofnotar nefnifall, fælist eignarfall, lætur sögn í fleirtölu fylgja nafnorði í eintölu, beygir föðurnafn eins og um útlent ættarnafn sé að ræða, sagnorð standa óbundin af tölu eða falli nafnorðs o.s.frv.; orðfátækt þess til stór lýta. Hver er ástæðan, að sá leiði vani skuli haldast uppi í útvarpi að sama fólkið skuli dag eftir dag bryðja á sömu gaddjöxlunum eins og engum komi það við? Það eitt að láta sér standa á sama, flokkast það ekki undir ofbeldi, þjösnaskap?

Frægt er dæmið úr Keflavík af enskukennaranum, sem hafði eitthvað bjagaðan framburð og varð sér til athlægis hjá nemendum. En þegar sá góði maður sá ástæðu til að leiðrétta íslenskumálvillur nemendanna var hann góðfúslega beðinn um að vera ekki að skipta sér af því sem honum kæmi ekki við. Hefur ruglukollum í íslenska skólakerfinu tekist að afmá allar eðlilegar kröfur, e.t.v. í nafni hæpins jafnaðar? Var ekki einhvern tímann viðkvæðið, að lágstéttarpakkið og vinnuþrælarnir hefðu ekkert í skóla að gera? Hver voru skilyrðin á Íslandi? Á hverju eiga börnin að spreyta sig? Oft er manni næst að halda, að megnið af öllu listfálmi og í mörgum tilvikum háskólanám sé hrein örvæntingarleið ungmenna til að losna úr hafti lélegrar grunnmenntunar. Fólk útskrifast af efri skólastigum illa talandi og ritandi, en stendur þó í þeirri meiningu, að rutlið þess sé aflmikið tannhjól í algerlega einstöku ferli, nútímavæðingu og upplýsingabyltingu. Margir eru til taks að upphefja sjálfhverfan og lokaðan heim samskiptatækninnar - svo til komnir í þrot með allt sitt margtilkeyrða ónytjubuldur hvort eð var og sjá enga aðra leið færa út úr tilvistarvanda sínum, en taka áfram óskipt þátt í nútímavæðingunni sinni, post díalektískri; eins og nútími hafi aldrei verið til með fyrri kynslóðum.

Fólk, sem meinað er að læra sitt móðurmál að einhverju gagni í skóla, sakir stefnu fræðsluyfirvalda um auðveldara aðgengi ungmenna að náminu, er svikið um mikilsverða lífsfyllingu og gjöf. Börnin læra málið af þeim sem þau umgangast náið. Er einhver trygging fyrir því, að fóstrur eða leikskólakennarar hafi næmi fyrir hlutverki sínu? Hvaða verðmæti eru annars fólgin í löggildingu þessarar fagstéttar? Ef munurinn á réttu og röngu máli er burtmáður úr barna- og unglingakennslu, til þess e.t.v. að herða á almennri tjáningaþörf, hverfa burt skil, sem engin leið er að komast af án, bygging málsins, skýrleiki, smekkur, allt fer forgörðum. Ef bygging málsins er sífellt meir að gefa sig, líkt og af dæmum má ráða, er rótarleg menningarleg stéttaskipting á næsta leiti og barnaskapur að halda annað. En hver er hún þessi menning? Býr hún í sparibauk? Tómum sparibauk?

Illa hnökrað mál má kenna við skilaboðaskjóðu, og telst eðlilegur hluti nútímavæðingar í hugum velmeinandi fræðimanna, sem óðir og uppvægir vilja tryggja jafnréttið, frjálsa tjáningu, hlut óheftari tilfinninga og meiri fjölbreytni. Poppið og rokkið þrífst mikið til á grjótgeldri málvitund, og rithöfundar ýmsir og margir fræðimenn hugsa sér að elta ambögur í pytt. Hefur íslenska þjóðkirkjan ekki áhyggjur af hnignandi málkennd með guðsorðið allt á þjóðtungunni? Ástmegir síaukins lýðræðis, sem stöðugt vilja herða á almennu samráði? Hvað með yfirvöldin á annarri hverri þúfu? Af hverju hafa kennarar mestar áhyggjur þegar þeir fást til að viðra þær? Frjálsri tjáningu?

Stefna skólans er hvað íslenskuna varðar áfram óbreytt, samanber nýju námskrána. Slakar kröfur í íslensku munu magna upp ömurlegri doða því lengra sem líður, rótleysi, angist, einhver örþrifaráð, sem sumir vilja bendla við mannlegar þarfir eða listræna tjáningu. Um þessi atriði er tíðum fjasað á öldum ljósvakans í menningartengdu efni, oft á forkostulegum forsendum og á einstaklega ábúðarfullan hátt. Margtuggin rulla, hversdagslega fúkyrt, á vísast eftir að knýja dyra hjá kvölurum sínum óðamála, áður en yfir lýkur og reimleikum líkast. Í Kolbeinslagi, Andvökum Stefáns G., kveður Kolbeinn: "Árgala á íslenskt vor og útsýn ljóða" og Kölski: "Myrkrið hérna heim skal bjóða/ hjátrúnaði ríkra þjóða."

Samkvæmt óbreyttri stefnu grunnskólans skal meginmarkmið námsins miðast við að breyta námsefni með aukinni þjálfun og þroska nemandans í söluhæfa vöru. Ástundun skal miðast við hneigðir barnanna. En hvað um sameiginlegan grunn, jafnréttið og réttlætið? Blessuð litlu börnin. Hvað ætla þau að verða þegar þau eru orðin stór? Mannauður og lífsleikni kallast á við orðvana framtíð.

Tungumál og hugsun eru samhverf, greiða skarpari sjón og næmari skynjun götu. Fólk lætur fremur bugast tilfinningalega, ef hugsunin grípur þráfaldlega í tómt. Engum er ætlað að glíma öllum stundum við þann kollótta, sem ýfir upp, sefar og kætir líkt og hljóðbær úðabrúsi. Hinn óborni Messías mun ofinn gliti á uppboðsmarkaði látlausra upplifana undir drynjandi takti bíókemískra hljóðgervla. Ómerkilegheitanna upphafning, afneitunin, óskhyggjan, vandlætingasemin, helgislepjan, þanin, sveitt. Fortíðin, ein vídd líðandi stundar, stundir, bæði margslungnar og margvíslegar, var aldrei einungis áform eða undirbúningur undir þá samtíð, sem við lifum við, dæmd til að leita leiða til þess að má burtu lifandi víddir verðandinnar, gónandi uppá framtíðina milli líkinda og vissu hálfsturluð af aðdáun á sjálfum okkur, okkar minnsta bróður.

Þeim er síður hætt, sem einhver tengsl hafa við sögu þjóðar sinnar og tungu meðan streist er við að hætti tíðarandans, að sem flestir hafi sem oftast rækilegust endaskipti á hlutunum, taugahrollsins vegna. Enda þótt frjálslyndir jafnaðarmenn og frjálshyggjupostularnir hafi fallist í faðma, keppist um að bjóða falt allt, sem nöfnum tjáir að nefna úr neðstu undirdjúpum út yfir ystu sanda, efst í himnaranninum, er erindi þeirra eitt og hið sama: lýðhylli, upphefð, völd. (Sbr. brókarlinda Falgeirs.) Völdin eru sæt, en ekki heiðingjum og hálfsljóu illþýði samboðin nú fremur en endranær.

Forsætisráðherra, sem situr, má minnast þess að hann er ekki nema ráðsmaður í eigin flokki og ríkisstjórn. Gáleysistal eins ráðherrans, að ríkisstjórnin gengi útfrá stuðningi sinnar þingmannasveitar vísum við afgreiðslu fjáraukalaga var falboðið öllum lýðnum á dögunum. Ráðherrann sýndi sínum þingflokki lítilsvirðingu og framdi valdníðslu ósamboðna þingi og þjóð. "Þeim, er svona sjálfsdáð galar, sannleikurinn er til kvalar", kvað Kölski í Kolbeinslagi. "Von er að vísu bagabót, segir þúkýdídes" en sjaldan lítilþæg, (brot úr þýðingu Friðriks þórðarsonar, yfirskrift á "Síðustu bjartsýnisljóðum", í ljóðabókinni "Útlínum á bak við minnið", frá 1987, eftir Sigfús Daðason).

Að lokum: Hæðnismanna hungruð görn / hyggst að svelgja cunctum (allt). / Sorfin Grótta Sels við tjörn / svei því attan, punktum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband