Af betlikörlum í kellingaham



Á HVERJA er hlustað og hverjir hafa forgang hjá þjóðum heims, ef auka á eiturefnalosun einnar þjóðar um tugi prósenta? Þessu fékk íslenzka sendinefndin í Buenos Aires að kynnast á dögunum þegar hún var spurð hvort eitthvað mikið amaði að heima hjá henni; hrun atvinnuvega, langvarandi illt árferði, eitthvað í þá áttina. Brengla þessar upplýsingar sjálfsímynd læsrar, fjölmiðlavæddrar þjóðar?

Á alþjóðavettvangi hefur myndast samstaða um, að þær þjóðir einar skuli fá undanþágu á efnaútblæstri, sem eiga við mikinn, langvarandi vanda að stríða heima fyrir, fátækt, mannfjölgun, atvinnuleysi, hungur. Mönnum er alvara. Og það kom flatt upp á landann. Hvort er betlistafurinn tamari í hendi manns, sem þylur skriftamál sín og eymdarvol fyrir hvers manns dyrum, sér og sínum til athlægis, með eitt og aðeins eitt í hyggju, þ.e. algert frjálsræði sér til munns og handa í skjóli afláts, afreka á borð við nýtingu jarðvarma, eða í hendi hins, sem lætur þeim ölmusuna eftir, sem hennar leita út úr neyð? Hvaða hlekki var Knut Hamsun að brjóta af söguhetju sinni í Sulti, sællar minningar?

Jarðvarma má nýta til rafmagnsframleiðslu með stórum minna raski en fallvatnsvirkjanir, að ólíku er saman að jafna og þeirri tækni fleygir stöðugt fram þessi misserin. Því fer víðs fjarri, að við Íslendingar séum eina ferðina enn á vonarvöl, þó skósveinar ríkisvaldsins og fylgiskannanir við það lið veki óvart grun um annað. Hvers vegna stóriðju? Erum við Íslendingar haldnir sjálfseyðingarhvöt, leitandi allir sem einn Fata Morgana í eyðimörkinni, Utópíunnar, allsherjar unnendur hverskonar lista, öreigavinirnir, frjálsræðishetjurnar? Og hvers á íslenzki smalinn að gjalda, sem mun fremur var skortsins barn en sjálfsupphafnir stafkarlar íslenzka ríkisins?

Hvers vegna að kosta bókstaflega öllu til orkufrekrar jafnt og gríðarlega fjárfrekrar stóriðju fyrst sukkið og bramboltið skilar íslenzkum þegnum aðeins minni háttar fúlgum, sé allt tilhaldið reiknað, og fyrst og fremst klúrri eyðingu fágætra griðlanda, að ógleymdum lamandi langtímaskuldum með tilheyrandi vöxtum og vaxtavöxtum? Hvorki starfsmenn stóriðjunnar né iðjuhöldarnir sjálfir þurfa að borga grænan eyri af verðmæti framleiðslu sinnar í yfirgengilegan tilkostnað vegna uppihalds iðjuveranna. Ekkert, sem þá munar um. Og hvers vegna íslenzkir skattgreiðendur? Er þessi aðstaða, sem stórkarlalegri stóriðju býðst hér á landi, ekki alveg hreint einstök, eitthvað á borð við náðarmeðulin, sem vart telst í verkahring íslenzku ríkisstjórnarinnar að útbýta; á einhverju hljóta herlegheitin að bresta. Ríkissjóður hirðir ugglaust sínar tekjur af stóriðjunni. Sumir státa mjög af því. En hverjir sjá um að greiða niður skuldir þessa sama ríkissjóðs? Skattþegnarnir. Hverjir eru í innheimtunni fyrir hina erlendu lánardrottna? Eru það ekki karlar í krapinu? Stefna íslenzkra stjórnvalda í stóriðjumálum hefur aldrei og mun aldrei borga sig fyrir skattþegna íslenzka ríkisins, sem skuldar stórmannlega, enda þótt oddvitar ríkissjóðs sjái sér leið um alla framtíð að minna á sig með ofstopafullum blekkingum. Allt skal það bitna enn óþyrmilegar á landi og þjóð, að með ólíkindum má heita. Er ekki tímabært að forseti Íslands gerist verndari hálendisins í nafni Alþingis, alþjóðasamfélagsins og sinnar vænu og velmenntu þjóðar?




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband