4.5.2008 | 23:47
Bréf til séra Sigurðar Ægissonar
MIG langar til að þakka þér grein frá 6. febrúar ´99 í Lesbók Morgunblaðsins, nota tækifærið rétt til gamans og víkja örfáum orðum að klausum í bók Arnórs Sigurjónssonar, "Frá árdögum íslenzkrar þjóðar," útgefandi Sögufélagið, 1987, bls. 87 og þeim næstu á eftir og vísa í stutt Edduskrif Jónasar skálds Hallgrímssonar, þýðingu á "Tilgátu um hvernig skilja beri 14. erindi Völuspár, Dvergatal í IV. bindi útgáfu Svarts á hvítu bls. 26166 frá 1987, skýringar og skrár.
Þú ert ef til vill, síra Sigurður, rétti maðurinn til að halda á loft við hentugt tækifæri ættfærslu Uppsala-Eddu frá dögum Finnaskattsins á trölldómi og hamremmi í kynkvíslum Valgarðs gráa, Sæmundar í Odda og Egils á Borg og Snorri taldi landanum og sjálfum sér mjög til gildis. Ekki er ólíklegt að einhverjir í "Trölla- og forynjuvinafélagi Íslands" og nú er á dögum eigi eftir að leita þig uppi á götu. Margir þeirra þekkjast langt að á verulega frjálslega pólitískri slagsíðu hart í bak og út úr fasa, eða upp í kletta.
En í óskalandinu, sem hægt er að sjá fyrir og skipuleggja með réttum upplýsingum mun ímyndunaraflið loks fá að setjast hnakkakert við stjóra. Þó þessir glotti og glotti við tönn, tönnina spjátrung, skynsam eða guðsgelding a la postmodern já þrátt fyrir allt sullumbullið og drullumsullið í glerskálum frjóandans, fá þeir vart frýjað sig grunsemdum um yfirhilming og lægingu undirliggjandi skynsemisglapa og stórglæpa aldarinnar, sem vaxandi birta stöðugt nýrrar dagrenningar, nýrrar aldar og nýs árþúsunds mun baða í ljósi án minnstu vægðar til eilífðarnóns. Samkvæmt þráhyggju Karls Marx, Babeufs, Blanquis, Saint Simon og hvað þeir nú hétu þessir kjallarameistarar, áttu allir, undir fögru yfirskini, framúrskarandi listhneigðir og vísindalega þenkjandi að tróna gefnir fyrir dægradvöl í skini jafnt og skúrum eignalausir en ákafir unnendur síns stöðugtágenga og mikla mannlega ágætis. Tæki og tól, matvæli, hver landspilda, allt skyldi þjóðnýtt. Og hvað með kratana? Upp með dalina og niður með fjöllin.
Í bítið á morgnana rofar í fyrstu fyrir skímu af degi. Skarphéðinn, sem glotti við tönn þegar illa stóð á fyrir honum, leiddi ekki sín vandræði til lykta fyrr en í dauðastríðinu. Hann gerði fyrir sér krossmark og eilífðin brosti við honum. Okkar, sem lifum, er að brosa fram í andlátið, fram á nýtt árþúsund sé því að skipta. Eilífðin mun víst að lokum eiga nokkuð víst erindi við okkur, jafnt þó að við búum sífellt fleiri í ört stækkandi borgum.
Stjarnvísi, sem eitthvað kveður að, upphófst í landbúnaðargeiranum eins og svo margt annað, sem mennirnir hafa hlúð að og er kyrrt á sinni rót. Karl Marx veðjaði galið við olíutýru á spúandi þungavinnutæki og skipaflutninga og einhverja sort af Messíasarhópefli fólks, sem fjandakornið hefur aldrei litið upp á sólina, en hann trúði, karlskröggurinn, að hægt væri að móta með gjörbreyttum aðstæðum og réttri uppfræðslu. Hann gerði vart greinarmun á bændafólki og animalistum, sbr. átjánda brumaire.
Og hvað með blauthyggjustóðið, sem flykkist í kjörklefana í vor og þekkir sína stefnuskrá dögum áður en hún er samin? Þó að pólitísk markmið séu gleymd bíður margt fleira, sem ertir og ærir.
Fátækir verða alltaf á meðal vor sagði meistarinn, en ekki til að viðhalda pólitískum fagurgala, sem beinlínis þrífst á blóði hennar og tryggir sumum þingsæti. Ágirnd telst dauðasynd. Það er sælt að vera fátækur kvað skáldið. Fátækt og örbirgð eru ekki sami hluturinn hvað sem vandastjórum líður.
Væri ekki ráð, prestur minn góður, áður erindi þrýtur að biðja fyrir bættum lesskilningi íslenskrar þjóðar? Þrátt fyrir allt verður að segjast til þess að gera hálf slapprar tungumálakunnáttu landans, einhverjar upphrópanir samanvið gloppótt snakk, verður maður þess var daglega í fjölmiðlum að ensk málkennd er ákaft að ryðja sér til rúms í íslenzkunni vegna kitlandi kunnáttu og virðingarleysis blautlegra málsóða, sem vaða uppi í víðómi eins og fasistabullur. Og er borð fyrir báru? Eitthvað hefur undan látið. Ýfir ef til vill slök málkennd pólitískt fylgi við margyfirlýsta bestu vini undirokaðra og helst opna ekki munninn öðruvísi en kveðandi vandlætingatóninn um lýðræði og mannréttindi. Samt látast þeir ekki heyra, þegar hold springur frá beini suður í Afríku. Þar hefur Castró unnið ötult starf, útbíað allt í jarðsprengjum í nafni hugsjóna, sem miða opinberlega að því frómt frá sagt að afmá ofbeldi. Vonlaust þing og líkt og ofbeldisumræðan hér heima að sínu leytinu yfirbreiðsla, ergjandi vandlætingar og glópatal. Geta glötuð kjaftshögg ekki líka verið mannréttindamál?
Vill þetta fólk m.a. vegna mengaðrar pólitískrar innrætingar fremur teljast til menningarlegrar lágstéttar með tilheyrandi ókvæðissnobbi niðrávið oní skít og kanel en lúta í gras. Nú vel er hægt að falla á eigin bragði, og hrína framaní sköpunarverkið. Alla daga árs eru lögð út bjóð á bleiðurnar í von um kropp. Sakir blindu ráðandi lífsskoðana, sem hæst bylja um þessar mundir og kappi etja fyrir opnum tjöldum í félagslegu og menningarlegu lífi landans, er beygðum og áhrifagjörnum hættast og helst af öllu meinuð leiðin til fyllri og sannari gilda. Í hverju er endurlausn fólgin? Fæst hvergi almennilegt dóp? Skipið er nýtt en skerið hró, skal því undan láta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.