5.5.2008 | 16:03
Spurningar til hagfræðinga og stjórnmálamanna
NOKKRAR spurningar til óljúgfróðra stjórnmálamanna og sérfræðinga þeirra, en vonandi verður skrifstofuhald stjórnsýslunnar einkavætt, ekki veitir af að hagræða, ásamt skólum og fleiru álitlegu utan við sjúkratryggingakerfi ríkisins. Hvetjum til aukinnar samkeppni í raforkugeiranum og burt með einokunina. Frjálsar veiðar smábáta á víkum og flóum út á tíu mílur. Bú er landstólpi.
Þekkilegri skattastefnu
Hversu stór er rafmagnsframleiðslugeta Íslands miðað við orkuþörf einstakra borga, ríkja eða héraða í Evrópu, Ameríku eða Ástralíu? Hverju munar, að skattgreiðendur skuli vera ívið fleiri í Venezúela en á Íslandi, þegar þar kemur að borga niður rafmagn til stóriðju og afborganir af framkvæmdalánum vegna orkuveranna ásamt vöxtum og vaxtavöxtum? Hversu stór hluti eru skuldir Landsvirkjunar af heildarskuldum Íslendinga við útlönd? Um það bil helmingur? Hverjir borga niður þessi geysilegu lán, auk þess að greiða niður rafmagnið til iðjuveranna? Íslenzka ríkið, þegnar íslenzka ríkisins. Hvað tekur stóriðjan mikið af orku virkjananna? Miklu meira en helming þegar upp verður staðið, og á mjög niðurgreiddu verði. Hvað vega hinar óbeinu tekjur af iðjuverunum upp? Varð ekki ein fjöður að heilu hænsnabúi? Hvers vegna er raforkuverð á Íslandi ekki ein af helztu driffjörðum frumkvæðis, gjöfuls lífs í landinu? Af því að stjórnmálaflokkarnir í krafti ríkisvaldsins vilja gína yfir öllu. Hvað er frjálshyggja, ef hún útbreiðir hvað ötullegast fákeppni og einokunaraðstöðu?
Hvaða áhrif hefur hátt rafmagnsverð á búsetu og atvinnulíf á landsbyggðinni? Hvað er náttúruvæn orka, ef afstaða hálendis Íslands til umheimsins er tekin með í reikninginn? Hverju skal fórna með brútal náttúruskemmdum ríkisins, mengun og dýrum lánum til að koma eitthvað til móts við gífurlega raforkuþörf þéttbýlli landa? Kenndinni fyrir víðáttu landsins, mestu ósnortnu víðáttu allrar Evrópu. Er ekki full ástæða að vernda hana, fara e.t.v. fram á það við Evrópuráðið. Hverjir græða á stóriðjunni, verða þeir aðlaðir? Fá þeir nælu? Hvað verða landsetarnir íslenzku margir, og fá þeir sína ráðgjöf þegar álögurnar dynja og hömlurnar fella landsmenn í fjötra? Hvað með raforkuverðið til innlendrar starfssemi, fiskiðjuvera, ylræktar, hvað með gufuaflsstöðvar, hvar verða tækifærin, hvað með fiskimiðin, verða þau lokuð íbúum fjarðanna?
Öll raforkuframleiðsla Íslands mundi ekki einu sinni duga einni pattaralegri milljónaborg í Evrópu með öllum gögnum hennar og gæðum sólarhringinn. Hvað eru milljónaborgirnar margar? Hverjir eru síblekkjandi og falsandi, og vita minnst hvað í orðunum eða víxlinum felst? Himnasjólinn tekur sjálfsagt viljann fyrir verkið. En þessa sömu menn verður að firra ábyrgð, nema þeir, með góðri hjálp, telji sér og sínum hughvarf. Og vissulega gildir hið fornkveðna: Gakktu með sjó, og sittu við eld, svo kvað völvan forðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.