Þjóðerni

ÞJÓÐERNISKENND er hverjum manni í blóð borin. Hún lýsir sér í fleiru en ætt og uppruna. Land, þjóð og tunga / þrenning sönn og ein, kvað Snorri Hjartarson. Ættjarðarást er eðlislæg kennd, sem hvorki verður rakin til óhlutbundinna hugtaka né ótal mögulegra útlistana á þeim. Hún er hluti af uppeldi hverrar manneskju.

Íslendingar hafa ekki haldið sjálfir úti her til eigin uppihalds. Þeim hafa dugað snapir til góðra verka. Hluti þjóðarinnar hefur að vísu korrað upp undir öld friðarsöng til dýrðar fullkomnu heimsskipulagi hins göfuga villimanns, en hefur jafnframt liðið þungan af blygðun og skömm yfir vonsku manna í hinum vestræna heimi.

Þeir, sem hvað hæst lofuðu sovétfriðinn forðum tíð, boða margir hverjir nú um stundir óheftan sóðaskap og linku í málfarsefnum. Til þess að örvitar, sem ekki geta tjáð sig um neitt sem máli skiptir af neinu viti, engan veginn, hljóti sama rétt og hver annar til að fullt mark sé á þeim tekið. Helst í víðómi, hugstola á öldum ljósvakans líkt og smámellur í klóm hórmangara.

Frumstæður ótti við þjóðernið og skömm leiðir til þess að armingjar margir leita síns friðar í da-da og nihil, poppi eða súrríl, imbisílsku klámsulli, póststrúktúralisma eða bara í einhverju geysimenningarlegu, rápandi á Netinu, stunda vídeógláp, bíóráp, trantaralýður, bullandi og blaðrandi, landinn, í sínu einkennilega ástarhaturssambandi við heimsveldið í vestri, sem stendur vopnaðan vörð um þegna og lýðræðislega kjörna stjórnarherra hér á ættlandinu góða. Ekki skal því slegið föstu, að kynslóðir Íslendinga, sem nú eru á dögum, valdi því hlutskipti, sem þjóðin á skilið. Þar skilur með feigum og ófeigum, að við erum frjáls.

Íslenskukunnátta Taílendinga og Víetnama, sem hér eru búsettir, hefur m.a. óvænt gert þeim kleift að tala saman. Maður skyldi ætla að við Íslendingar ættum þær skyldur við okkur sjálf að halda málkennd okkar lifandi, vakandi. Ætla má að uppeldi okkar og dómar fari saman í þessum efnum án tillits til þjóðernis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband