Kvíavilla frh.

Draumvísur Jóns nokkurs Grettissonar frá því fyrir Örlygstaðarbardaga 1238:

 

Varist þér og varist þér,

vindur er í lofti.

Blóði mun rigna

á berar þjóðir.

 

Þá mun oddur og egg

arfi skipta.

Nú er hin skarpa

skálmöld komin.

 

Sveitaprestur kom í húsvitjun á afskekktan bóndabæ, þar sem bóndi þótti hvorki mjög kristilegur né kirkjurækinn. Presti var vel tekið og boðið kaffi við eldhúsborðið, en hundur bónda lá undir borðinu. Sem þeir sitja og spjalla þarf prestur skyndilega að leysa vind. Hann gerir það eins hæversklega og honum er unnt í von um að enginn taki eftir.„Snati,” segir bóndi byrstur, og léttir presti við, að bóndi kennir hundinum um. Hann leyfir sér því sömu athöfn aftur og enn skammar bóndi hundinn og er nú höstugri en fyrr. Prestur hugsar nú sem svo, að fyrst bóndi telji hundinn sekan, sé sér óhætt að losa sig við allan vindganginn og rekur hraustlega við.

„Snati,” sagði bóndinn þá, “komdu þér undan borðinu áður en mannandskotinn skítur yfir þig.”

 

Sr. Björn O. Björnsson var um tíma prestur að Hálsi í Fnjóskadal. Hann hafði hug á að stunda þar búskap, en kunni lítt til slíkra verka og réð sér því ráðsmann. Fyrsta morguninn sem þeir voru báðir á búinu spurði ráðsmaður klerk, hvað hann vildi að þeir gerðu í dag.

Hvernig væri að halda kúnum?” svaraði sr. Björn.

 

Þegar Ásgeir hannes Eiríksson, alþingismaður var ennþá pylsusali, var hann einhverju sinni að sýna amerískum ferðamanni miðbæ Reykjavíkur. Hann sýndi honum hróðugur styttuna af Hannesi Hafstein og lét þess getið að þetta væri nú langafi sinn.

 „Stofnaði hann fyrirtækið?” spurði ferðalangurinn.

 

Þriggja ára gamall íslenskur strákur sem alinn var upp í Danmörku var sendur á dagheimili. Hann var frekar lítill í sér í upphafi, enda hafði hann litla sem enga dönsku lært. Smám saman hresstist þó snáði, lærði dönskuna og fór að skilja starfsfólkið. Þegar hann nokkru síðar var spurður, hvernig honum líkaði á dagheimilinu, svaraði hann:

„Það er ágætt núna. Nú eru fóstrurnar farnar að skilja íslensku.”

 

Fyrir allmörgum árum sátu nokkrir útigangsmenn að drykkju um borð í bát, sem þeir höfðu tekið sér bólfestu í. Ásbjörn Ólafsson heildsali kom þar og gaf þeim 12 vodkaflöskur. Skyndilega sótti mikla depurð að einum drykkjumanninum og þegar hinir gengu á hann, hvað ylli, stundi hann upp:

„Hvað eigum við svo að gera þegar þetta er búið?”

 

Það gerðist í þá gömlu og góðu daga þegar fínar frúr í Reykjavík höfðu stúlku í húsinu, að ein frúin var að kenna nýrri stúlku til verka rétt áður en veisla sem hún ætlaði að halda hæfist. Hún lagði mikla áherslu á, að stúlkan myndi eftir molatönginni, því karlmenn væru svo miklir sóðar. Þeir færu á klósettið, þvægju sér ekki um hendurnar og færu svo beint með fingurna ofan í molakarið. Í miðri veislunni uppgötvaði frúin, að töngin var ekki á sínum stað. Hún fór þá fram í sldhús og spurði vinnukonuna hvar töngin væri.

„Nú, hún er frammi á klósetti,” svaraði stúlkan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband